Örlög guðanna

Sýning um norræna goðafræði og goðsögur. Gestir eru leiddir í gegnum fornan hugmyndaheim þar sem goð og goðheimar birtast ljóslifandi á myndrænan og nýstárlegan hátt og myndlist, frásögn og tónlist fléttast saman í eina heild.

Sýningin er samvinnuverkefni íslenskra samtímalistamanna og norrænufræðinga og útkoman er glæsilegt og nútímalegt listaverk um fornan menningararf. Sögurnar eru raktar með leikmyndum eftir listakonuna Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur undir tónlist eftir Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoða ásamt hljóðleiðsögn sem Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur hefur tekið saman. Hljóðleiðsögnin er á fjórum tungumálum; íslensku, ensku, þýsku og dönsku.

Heimsmyndin

Á sýningunni Örlög guðanna kynnist þú heimsmynd, trú og helgisiðum heiðinna manna fyrir rúmum þúsund árum og þeim goðum og gyðjum sem þeir trúðu á.

Á Norðurlöndum í kringum árið 850 var því trúað að jörðin væri flöt kringla umflotin hafi. Í hafinu á veraldarjaðrinum lá hinn ógnvekjandi Miðgarðsormur; hann umkringdi jarðarkringluna og beit í sporð sér. Veraldarkringlan hverfðist um heimstréð Ask Yggdrasils. Þrjár örlaganornir í goðheimum vökvuðu tréð á hverjum degi til að verja það fúa, því ef heimstréð visnaði og dæi, færist veröldin.

Tengsl goða og manna

Í Ásgarði, ofar mannheimum, bjuggu goðin. Óðinn var æðstur goða og var guð visku, rúnaþekkingar, skáldskapar og hernaðar. Eiginkona Óðins var hjúskapargyðjan Frigg og sonur þeirra var Baldur. Sjávarguðinn Njörður bjó við ströndu og stýrði byr og vindum. Börn Njarðar voru frjósemisgoðin Freyr og Freyja. Þrumuguðinn Þór var verndari goða og manna og strádrap jötna með hamri sínum Mjölni.

Eitt sinn í öndverðu, þegar veröldin var enn ung og illskan ekki til, var Óðinn á gangi á sjávarströndu með bræðrum sínum, þeim Vilja og Véa. Í fjöruborðinu gengu þeir fram á tvo trjáboli sem skolast höfðu á land. Úr þeim mótuðu þeir mannslíkama, karl og konu. Svo horfðu þeir á líflausa skrokkana og sáu að fleira þurfti til. Óðinn blés þeim í brjóst anda og lífi, Vili gaf þeim hugsun, vit og hreyfingu en Véi gaf þeim andlit og mál, sjón og heyrn. Mannverurnar tvær hétu Askur og Embla. Guðirnir fengu þeim bústað í Miðgarði og frá þeim er allt mannkyn komið. Í Miðgarði háðu mennirnir lífsbaráttu sína. Tilveran í mannheimum og velferð mannfólksins var háð velvild guðanna og þeir þurftu stöðugt að viðhalda elskusemi guðanna í sinn garð. Það gerðu þeir með margvíslegum helgisiðum við ýmis tækifæri og á mismunandi árstíðum. Slíkt hét að blóta goðin.

Blót

Blót voru haldin nokkrum sinnum á ári innan hverrar sveitar eða héraðs. Helsti höfðingi byggðarlags stóð venjulega fyrir slíkum blótum og bauð til sín öllum frjálsbornum mönnum úr nágrenninu til blótveislu. Að áliðnu sumri var haldið uppskerublót og gjafir jarðarinnar þakkaðar. Jafnframt var blótað til mildrar tíðar á vetri komanda. Í svartasta skammdeginu var blótað til að tryggja að sól hækkaði á lofti á ný og hringrás árstíðanna héldist í réttu horfi. Loks þegar veturinn tók að hörfa og daginn að lengja blótuðu mennirnir guði sína til árs og friðar til að tryggja að árferði yrði gott, jörðin frjósöm og gróskumikil, fiskigengd ríkuleg og menn og dýr við góða heilsu. Einnig blótuðu menn sér til sigurs í orrustum og gæfu á ferðalögum.

Á blótum voru guðunum færðar ýmiss konar áheitagjafir, bæði vopn og hvers konar dýrgripir sem talið var blíðka goðin. Stundum var dýrum líka fórnað. Drukkin var blótskál sem helguð var þeim goðum sem menn helst blótuðu hverju sinni.
 
Níunda hvert ár var haldið mikið blót til að tryggja viðhald alls lífs og viðgang veraldarinnar. Þá safnaðist fólk saman hvaðanæva að til blótsins sem stóð í níu daga og níu nætur. Þessi blót fóru gjarnan fram utandyra í helgum lundum. Slíkir lundir voru landamæri milli mannheima og goðheima og tré þar voru sérlega heilög enda tákn fyrir hið mikla heimstré, Asks Yggdrasils, sem bar uppi veröldina.