Víkingar Norður-Atlantshafsins

Sýning um siglingar og landnám norrænna manna og þátt þeirra í landafundum Norður-Ameríku. Sýningin var upprunanlega unnin af Smithsonian stofnuninni í Bandaríkjunum í tilefni þúsund ára afmælis landafunda Leifs Eiríkssonar. Hluti hennar var svo settur upp hér í Víkingaheimum í samvinnu við Smithsonian stofnunina.

Víkingar var heiti á norrænum sæförum og vígamönnum, sem uppi voru á víkingaöld, það er á árunum frá 800 til 1050. Víkingar voru þó einnig bændur, smiðir, lögmenn eða skáld. Víkingar notuðu víkingaskip (langskip eða knerri) í ferðum sínum.

Ferðast vítt og breitt

Víkingatímabilið hófst í kringum árið 800 eftir Krist og stóð óslitið í tvær aldir. Víkingar fóru víða. Þeir sigldu um Norðursjó, fóru inn á Miðjarðarhafið um Gíbraltarsund, sigldu fjótaleiðina til Svartahafs og áfram til austurlanda nær. Víkingar höfðu sig mikið í frammi í Rússlandi, á Írlandi og bresku eyjunum þar sem þeir sóttust eftir ránsfeng og þrælum. Aðrir stunduðu kaupskap eða leituðu heppilegra landa fyrir búskap og þeir námu lönd víðsvegar um hið vestnorræna svæði Evrópu.

Með seglum eða árum

Án hinna stórkostlegu skipa hefðu víkingarnir ekki getað siglt um heiminn. Byggingalag skipanna gerði þau fljót í förum undir seglum og auðvelt var að stýra þeim undir árum. Víkingarnir gátu auðveldlega ráðist á klaustur og þorp við sjávarsíðuna og einnig gátu þeir siglt djúpt inn í landið upp eftir ám og fljótum. Á meðalstóru skipi gat áhöfnin, um 30 manns, birst snögglega, gert árás og komist í burtu áður en íbúunum tókst að skipuleggja varnir sínar eða kalla eftir aðstoð. Stærstu skipin gátu borið 100 manns og nokkra hesta.

Að setjast að

Löndin utan heimalanda víkinganna buðu þó ekki bara upp á ránsfeng, heldur margvíslega möguleika til landnytja og verslunar. Landnám víkinga var að finna víða á bresku eyjunum, í vestur Frakklandi, Rússlandi og áður óbyggðum eyjum í Norður- Atlantshafi. Hinir norrænu landnemar höfðu varanleg áhrif á þessi landsvæði. Þeir stofnuðu til hjónabanda og gengu inn í menningu gistilandanna. Enn má sjá áhrif þeirra í norrænum örnefnum í bæjum á Englandi, Írlandi, Frakklandi og í Rússlandi.  Á Orkneyjum, Hjaltlandseyjum, eynni Mön og á fleiri eyjum undan norðvestur strönd Bretlands, voru áhrifin mest og varð menning víkinganna ráðandi.

Landnám

Þegar vísbendingar bárust um ónumin lönd héldu Norrænir bændur af stað. Nú var rétti tíminn til að yfirgefa heimalandið. Skipasmiðir gátu smíðað góð hafskip og fólkinu fjölgaði stöðugt. Skattar og nýjar reglur ýttu enn meira við eirðarlausum Norðmönnum. Víkingar sem herjuðu á bresku eyjarnar höfðu haft fregnir af eyjum í norðri þar sem talið var að einungis írskir einsetumunkar byggju.

Upp úr árinu 800 hófu Norðmenn að leita landa á þessum slóðum. Þá var hlýindaskeið sem gerði hinar norðlægu eyjar enn eftirsóknarverðari til búsetu. Í Færeyjum, á Íslandi og á Grænlandi gátu norrænir menn byggt á svipuðum nótum og heima fyrir.

Þetta og margt fleira um siglingar og ferðir norrænna manna er að finna í Víkingaheimum.